Fyrri mynd
NŠsta mynd
Ok
Velkomin ß heimasÝ­una okkar. Vi­ notum vefk÷kur (e. cookies) til ■ess a­ bŠta upplifun ■Ýna og greina umfer­ um sÝ­una. Me­ ■vÝ a­ nota vefsÝ­una sam■ykkir ■˙ notkun ß vefk÷kum og skilmßla okkar.
CP ═sland
CP ═sland
Opna valmynd Loka valmynd
 

Meðferðarúrræði

CP er ólæknandi og ævilöng fötlun en með markvissri meðferð er hægt að auka færni og getu. Árangursríkast er að fagaðilar sem koma að meðferð og stuðningi vinni saman í teymi. Skilgreina þarf vandamál og þarfir hvers og eins og útbúa meðferðaráætlun í kjölfarið.

Helstu fagaðilar sem koma að málefnum einstaklinga með CP eru:

Læknir með sérhæfingu á sviði fatlana eða taugasjúkdóma. Hann er yfirleitt leiðandi í teyminu. Læknir ákveður hvaða orsakarannsóknir eru gerðar og stjórnar lyfjameðmerð sé þess þörf. Hlutverk hans er einnig að samhæfa ráðleggingar frá öðrum fagaðilum. Lesa nánar um lyf

Bæklunarlæknir. Flestir einstaklingar með CP þurfa einhvern tíma að koma til skoðunar og mats hjá bæklunarskurðlækni. Tekin er afstaða til ýmissa hjálpartækja, metin þörf á aðgerðum og annarri meðferð. Allar mikilvægar ákvarðanir eru teknar í samráði og samvinnu við einstaklinginn sjálfan og foreldra, sjúkraþjálfara, stoðtækjafræðing ofl. allt eftir því sem við á. Lesa meira um skurðaðgerðir

Sjúkraþjálfari. Starf sjúkraþjálfara er m.a. að fyrirbyggja seinni tíma afleiðingar fötlunar og virkja einstaklinginn til lífsmynsturs sem inniheldur reglulega hreyfiþjálfun. Meginmarkmið sjúkraþjálfunar er að bæta hreyfifærni, úthald og vöðvastyrk og oft eru sjúkraþjálfarar leiðbeinandi við val á hjálpartækjum. Einnig leggja þeir mat á hreyfifærni og setja fram viðeigandi markmið þjálfunar fyrir hvern og einn. Þroskaþjálfi sem stuðlar að auknu sjálfstæði í leik og félagslegum samskiptum. Lesa nánar um sjúkraþjálfun

Þroskaþjálfar leggja gjarnan fyrir þroskamat og eru ráðgefandi varðandi áhersluþætti í þroskaþjálfun. Unnið er að því að allir fái tækifæri til að nýta þá hæfni sem þeir búa yfir til fullnustu. Lesa nánar um þroskaþjálfun

Iðjuþjálfi sem metur færni við daglega iðju og leiðbeinir viðkomandi einstaklingi að auka færni sína í námi, vinnu, á heimili og í daglegu lífi. Markmið iðjuþjálfunar er m.a. að styrkja sjálfsmynd og stuðla að aukinni vellíðan svo viðkomandi verði betur í stakk búinn að takast á við fjölbreytt verkefni. Lesa nánar um iðjuþjálfun

Talmeinafræðingur sem metur málþroska og kemur með tillögur um hentug úrræði varðandi talþjálfun og tjáskipti. Í talþjálfun einstaklinga með CP er oft unnið að leiðréttingu framburðargalla og þvoglumælis. Stundum er þörf á notkun óhefðbundinna tjáskiptaleiða. Lesa nánar um þjálfun tjáskipta

Stoðtækjafræðingur sem aðstoðar við greiningu og skoðun á hvaða hjálpartæki henti viðkomandi. Hlutverk hans er að koma með tillögur um smíði eða aðlaganir á stoð- og hjálpartækjum. Stundum þarf að sérsmíða hjálpartæki eða gera á þeim breytingar til að þau henti þörfum hvers og eins.

Sálfræðingur. Í greiningu og mati sjá sálfræðingar um að leggja fyrir greindar- og þroskapróf og koma með tillögur að úrræðum í samræmi við útkomu þeirra. Oft er sálfræðingur ráðgefandi varðandi meðferð við hegðunarerfiðleikum.

Félagsráðgjafi sem bendir á úrræði í velferðar- og menntakerfinu sem henta hverjum og einum. Hann er ráðgefandi um félagsleg réttindi og þjónustu sem býðst hverju sinni. Einnig veitir félagsráðgjafi sálfélagslegan stuðning eftir því sem við á.

Kennari og aðstoðarmenn í skóla gegna mikilvægu hlutverki þegar einstaklingur með CP kemst á skólaaldur, sérstaklega ef viðkomandi á erfitt með nám vegna þroskahömlunar eða sértækra námserfiðleika.

Þjálfun, hvort sem hún tengist hreyfingu, máli og tjáningu, eða til að ná tökum á athöfnum daglegs lífs, er mikilvægur þáttur í lífi einstaklinga með CP. Markmið þjálfunar breytast með aldri og þroska þess fatlaða. Færni 2 ára barna til að kanna heiminn er mjög ólík þeirri færni sem þarf í skólastofu og þeirri kunnáttu sem ungt fólk þarfnast til að verða sjálfstætt. Þjálfunin er því sniðin að breytilegum þörfum einstaklingsins hverju sinni.

Yfirfærsla allrar þjálfunar er afar brýn, einkum og sér í lagi fyrir einstaklinga með CP. Þjálfarar eiga að fræða einstaklinginn og aðstandendur um leiðir sem stuðla að bættri getu heima fyrir, í skólanum, vinnu og í daglega lífinu. Einstaklingarnir sjálfir og fjölskyldur þeirra gegna að sjálfsögðu mikilvægu hlutverki varðandi meðferðir og þjálfun. Góð samvinna allra þeirra sem hlut eiga að máli skilar bestum árangri.

Eftir því sem einstaklingur með CP eldist breytast áherslur varðandi þjálfun og stuðning. Samhliða hefðbundinni þjálfun er oft unnið að starfstengdri þjálfun, hugað að tómstundastarfi, skemmtunum og sértæku námi þar sem það á við. Þörf getur verið á sálfræðilegri ráðgjöf vegna tilfinningalegra vandamála, en þörfin fyrir slíka aðstoð er oft afar brýn á unglingsárum.

Það fer að sjálfsögðu eftir getu og aðstæðum hvers og eins hvaða stuðningur hentar á fullorðinsárum. Sumir gætu þurft fylgdarmann, sérhæft húsnæði, akstur og atvinnutækifæri sem henta. Aðrir þarfnast engra sértækra úrræða þrátt fyrir CP fötlun.