Fyrri mynd
NŠsta mynd
Ok
Velkomin ß heimasÝ­una okkar. Vi­ notum vefk÷kur (e. cookies) til ■ess a­ bŠta upplifun ■Ýna og greina umfer­ um sÝ­una. Me­ ■vÝ a­ nota vefsÝ­una sam■ykkir ■˙ notkun ß vefk÷kum og skilmßla okkar.
CP ═sland
CP ═sland
Opna valmynd Loka valmynd
 

Viðbótafatlanir og fylgikvillar

Það er alls ekki svo að allir einstaklingar með CP glími við fylgifatlanir eða sjúkdóma sem tengjast CP. Oftar en ekki koma þó fram útbreiddari einkenni því heilaskemmd sem truflar starfsemi hreyfistöðva í heila getur einnig valdið flogum, þroskahömlun, haft víðtæk áhrif á einbeitingu, hegðun, sjón og heyrn. Hér verður minnst á nokkrar algengar viðbótarfatlanir og fylgikvilla CP.

Krampar eða flogaveiki. Allt að helmingur þeirra sem greinast með CP fá krampa. Við krampa verður truflun á eðlilegri rafboðastarfsemi í heila. Þegar um endurtekna krampa er að ræða án beinnar ertingar, eins og hita, er ástandið nefnt flogaveiki. Einkenni floga er röskun á hreyfingu, skynjun, atferli, tilfinningu og /eða meðvitund.

Þroskahömlun. Um helmingur greinist einnig með þroskahömlun og búast má við sértækum námserfiðleikum eða greind undir meðallagi hjá um 25-30% til viðbótar. Þroskahömlun er algengust meðal einstaklinga með spastíska fjórlömun.

Skert sjón og/eða heyrn.  Sjón- og heyrnarskerðing er nokkuð algeng meðal einstaklinga með CP. Talið er að um 40% séu með skerta sjón og allt að fimmtungur með skerta heyrn. Fjöldi einstaklinga með CP er tileygður vegna þess að vöðvar sem stjórna augunum vinna ekki vel saman. Eftirlit hjá augnlækni er mikilvægt því hægt er að hafa áhrif á ástandið með skurðaðgerð eða annarri meðferð.

Óeðlileg skynúrvinnsla og skynjun.  Hluti þeirra sem eru með CP hefur skerta tilfinningu, skynja t.d. ekki á eðlilegan hátt snertingu eða sársauka. Þeir sem hafa skert snertiformskyn (stereognosia) eiga erfitt með að þekkja hluti með því að þreifa á þeim.  Þeir eiga t.d. erfitt með að þekkja harðan bolta, svamp eða aðra hluti með höndum án þess að líta á hann fyrst.   

Munnvatnsflæði.  Skert stjórn á vöðvum í hálsi, munni og tungu getur leitt til þess að viðkomandi slefar. Munnvatnið getur valdið alvarlegri ertingu í húð og valdið félagslegum vandkvæðum.  

Röskun á vexti. Oft á fólk með CP erfitt með að matast og kyngja vegna skertrar vöðvastjórnunar í munni og koki. Vélindabakflæði og hægðatregða eru algeng. Þetta getur leitt til næringarvandamála og vanþrifa. Vanþrif er hugtak sem notað er um börn sem þyngjast og vaxa hægt.  Orsakirnar eru margar en skemmdir á heilastöðvum sem stjórna vexti og þroska ráða sennilega miklu. Til að auðvelda kyngingu er stundum nauðsynlegt að gefa hálffljótandi fæðu. Ef illa gengur getur einstaklingur tímabundið þurft að nærast gegnum slöngu sem þrædd er gegnum kokið og ofan í maga. Í alvarlegustu tilvikum er gerð aðgerð þar sem slanga er þrædd inn í magann í gegnum lítið gat á kviðveggnum (gastrostomy) og næring gefin þar í gegn. Hægðatregða og vélindabakflæði eru meðhöndluð með breyttu mataræði og lyfjum.

Þvagleki. Algengur fylgikvilli CP er þvagleki og erfiðleikar við stjórnun þvagblöðru því starfsemi vöðva sem loka þvagblöðrunni er oft skert. Það lýsir sér í þvagmissi jafnt að nóttu sem degi en stundum er vandamálið mest við áreynslu.  Ýmsar meðferðarleiðir eru reyndar við þessu vandamáli, má þar nefna lyfjameðferð, grindarbotnsæfingar, bjölluútbúnað vegna næturvætu og skurðaðgerðir.

Bein og liðir.  ​ Hluti einstaklinga með CP glíma við mjaðmavandamál, hryggskekkju og beinþynningu. Vöðvaspenna og vöðvastyttingar geta valdið liðhlaupi  þ.e. að mjaðmir fari úr lið. Ójafnvægi í spennu vöðva við hryggsúlu getur leitt til hryggskekkju. Með kerfisbundinni skoðun í CPEF getur fagfólk fylgst með þróun hjá einstaklingum með CP og komið auga á varúðarmerki og farið í fyrirbyggjandi aðgerðir.