Fyrri mynd
NŠsta mynd
Ok
Velkomin ß heimasÝ­una okkar. Vi­ notum vefk÷kur (e. cookies) til ■ess a­ bŠta upplifun ■Ýna og greina umfer­ um sÝ­una. Me­ ■vÝ a­ nota vefsÝ­una sam■ykkir ■˙ notkun ß vefk÷kum og skilmßla okkar.
CP ═sland
CP ═sland
Opna valmynd Loka valmynd
 

Hvað er skerðing á vitsmunalegri starfsemi?

Heilalömun er heilaskaði sem veldur alltaf líkamlegum vandamálum, í meiri eða minni mæli, og þessi vandamál eru mjög sýnileg. Auk þessa getur heilaskaðinn leitt til skerðingar á vitsmunalegri starfsemi, svo sem erfiðleika við einbeitingu og námsörðugleika.

Skerðing á vitsmunalegri starfsemi er oftast minna sýnileg en skerðing á hreyfigetu, en getur haft mikil áhrif á daglegt líf einstaklingsins og möguleika hans á virkri þátttöku í samfélagi og atvinnulífi. Það er því mjög mikilvægt að öðlast sem bestan skilning á því hvers konar skerðingu á vitsmunalegri starfsemi hver og einn er með.

Þannig verður auðveldara að greina þörf hvers og eins fyrir aðstoð og hjálpartæki og með því er hægt að gera viðkomandi kleift að verða eins sjálfbjarga og unnt er, á mismunandi sviðum daglegs lífs. Þegar talað er um vitsmunalega starfsemi er átt við ferli í heilanum sem gera okkur kleift að tala, beita rökhugsun, hugsa og leysa vandamál. Færni til vitsmunalegrar starfsemi er mismikil hjá hverjum einstaklingi fyrir sig og öll búum við yfir einstaklingsbundnum styrkleikum og veikleikum.

Hugið sérstaklega að yngstu börnunum
Vistmunaleg starfsemi okkar er skilgreind sem eðlileg ef færnin sem við búum yfir gerir okkur kleift að leysa vandamál og úrlausnarefni hversdagslífsins án teljandi vandkvæða. Ef við hins vegar höfum skerta vitsmunalega starfsemi sem hefur áhrif á möguleika okkar til þátttöku á ýmsum sviðum samfélagsins er mikilvægt að greina í hverju vandamálin eru fólgin, til að geta veitt nauðsynlega hjálp.

Þegar ung börn með heilalömun eiga í hlut er mikilvægt að kanna hvort barnið er einfaldlega að taka út þroska seinna en jafnaldrar þess eða hvort í raun er um skerðingu á vitsmunalegri starfsemi að ræða. Þegar barnið er mjög ungt er yfirleitt lögð áhersla á að greina líkamlegu skerðinguna og um leið er hætta á að mönnum yfirsjáist minna sýnilega skerðingin, þ.e. skerðing á vitsmunalegri starfsemi.

Þegar einstaklingur greinist með skerðingu á vitsmunalegri starfsemi er átt við vandamál sem tengjast einu eða fleiri eftirtalinna sviða:

• Athygli og einbeitingu
• Minni
• Máli
• Rýmis- og áttaskynjun (rýmisfærni)
• Færni til að skilja upplýsingar með línulegri framvindu (raðbundin færni)
• Færni til að bera kennsl á tiltekna hluti, vinna úr sjónrænum upplýsingum og meta fjarlægð
(skynjunarfærni)
• Færni til að skipuleggja og framkvæma fyrirætlanir (framkvæmdafærni)

Athygli og einbeiting
Athyglis- og einbeitingarbrestur er algeng skerðing á vitsmunalegri færni hjá sumum þeirra sem þjást af heilalömun. Slík skerðing getur valdið því að einstaklingurinn á erfitt með að halda einbeitingu, lætur hugann reika, missir þráðinn eða gerir hugrenningatengsl sem aðrir geta ekki fylgt eftir.
Fyrir kemur að viðkomandi „fellur í stafi“ og svo virðist sem hann eða hún sé ekki að hlusta. Þá kemur fyrir að einstaklingurinn hvái ítrekað og biðji þann sem talað er við að endurtaka það sem sagt var.

Það getur verið erfitt og íþyngjandi að lifa með skerðingu á vitsmunalegri starfsemi og það getur skapað aðstæður þar sem bæði einstaklingurinn og umhverfi hans upplifa gremju, vegna þess að skerðingin veldur því að einstaklingurinn skilur ekki ýmsa hluti eða gleymir þeim. Mörgum líður eins og þeir séu heimskir. Aðrir upplifa viðkomandi ef til vill sem heimska, en það er mikilvægt að ítreka að þetta orsakast af skerðingu á vitsmunalegri starfsemi.

Skerðing á vitsmunalegri starfsemi hefur, eins og áður sagði, mismunandi birtingarmyndir eftir einstaklingum. Það er því mikilvægt að taka mið af þeirri sértæku skerðingu á vitsmunalegri starfsemi sem hver og einn er með þegar reynt er að leita úrræða við vandanum. Úrræðin snúast fyrst og fremst um að nýta sér styrkleika einstaklingsins til að bæta fyrir veikleikana.
Taugasálfræðileg skoðun ætti að veita aukna innsýn í skerðingu á vitsmunalegri starfsemi hjá hverjum og einum.